Í dag eru aðstæður þannig á Íslandi að við erum rík af tungumálaforða og því gaman að gera það að umfjöllunarefni Skólamolans. Nokkrir kennarar sem vi

moli

Í dag eru aðstæður þannig á Íslandi að við erum rík af tungumálaforða og því gaman að gera það að umfjöllunarefni Skólamolans. Nokkrir kennarar sem við leituðum til sendu okkur örsögur og niðurlagstexta og erum við ákaflega þakklátar fyrir það.

Íslenska UNESCO-nefndin og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum efndu til móðurmálaviku þann 21.-28. febrúar 2014 í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins.Fleiri aðilar s.s. Móðurmál – Félag tvítyngdra barna, Kennarasamband Íslands, Reykjavíkurborg tóku þátt í skipulagningunni. Afrakstur þessarar vinnu var málþing og atburðir víðsvegar um landið. Á síðunni http://tungumalatorg.is/21feb/2014-2/ má finna m.a. athyglisverð myndbönd og upplýsingar um fjölda tungumála á Íslandi í dag en hvoru tveggja má nýta í skólastofunni. Þar er einnig að finna hugmyndabanka þar sem safnað er saman gagnlegum hugmyndum til að koma til móts við nemendur sem tala annað móðurmál en íslensku.

***

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar örsögur úr skólum á landinu.

Á undanförnum árum hefur nemendum af erlendum uppruna verið ört vaxandi hópur í Grunnskóla Hornafjarðar. Nemendahópurinn er því orðin afar fjölbreytilegur og geymir mörg þjóðarbrot og tungumál. Sú breyting sem orðið hefur á samsetningu nemenda hefur kallað á nýja nálgun til að koma til móts við þessa nýju auðlind nemenda. Til að sem best takist til veltur oft á tíðum á því hvort fjölbreytileikinn er túlkaður sem tækifæri en ekki hindrun.

Það er óhætt að segja að starfsfólk Grunnskóla Hornafjarðar hafi unnið jafnt og þétt í átt að réttri leið en margt er óunnið og alltaf má gera betur. Mikilvægast er þó að starfsmenn eru meðvitaðir og jákvæðir fyrir því að koma til móts við nemendur af erlendum uppruna. Með aukinni þekkingu hefur orðið meiri skilningur á ýmsum þáttum eins og mikilvægi þess að nemendur viðhaldi móðurmálinu ekkert síður en að læra nýja málið, íslenskuna. Efling tengsla við foreldrana er mikilvæg og er starfsfólk orðið vakandi fyrir því að leita leiða til að ná til foreldra svo þeir séu í sem mestum tengslum við skólann. Grunnskóli Hornafjarðar vill stefna í rétta átt að því marki að nemendur og foreldrar barna að erlendum uppruna verði hluti af samfélaginu og þekking þeirra og kraftur nýttur í að gera samfélagið öflugra þar sem allir eru tilbúnir að læra hver af öðrum. Fyrsta skrefið er þó alltaf að hafa opin huga fyrir nýjum leiðum en í kjölfarið uppskerum við hugmyndir til að nýta í starfi og leik. Grunnskóli Hornafjarðar er því stoltur af því að vera hluti af tungumálaforða landsins og eiga tólf tungumál sem öll eru jafn mikilvæg.
Grunnskóli Hornafjarðar var fyrsti skólinn til að skila inn upplýsingum um fjölda tungumála. Hann var einn þriggja skóla sem dreginn var út á ráðstefnunni 21. febrúar og fékk bókina "Eitt þúsund tungumál" sem bókaútgáfan OPNA ehf. gaf.

**Örsögur.

Góður kennari getur skipt máli. Árið 1930 flutti ung dönsk stúlka til Íslands og byrjaði skólagöngu sína þar. Heima fyrir var töluð danska og íslenskan var töluð í skólanum og við önnur börn sem töluðu íslensku. Í bekknum voru börn frá mörgum löndum en helstu vinir hennar utan skóla voru íslenskir. Þegar hún var 15 ára flutti hún aftur til Danmerkur og lauk námi þar en kom svo aftur til Íslands. Þessi kona talaði betri íslensku en flestir íslendingar og þakkar hún það alfarið mjög góðri íslenskukennslu sem hún fékk hér á landi.

Foreldrar hafa búið í nokkur ár á Íslandi og stúlkan hefur alist upp hjá ömmu sinni í Litháen. Foreldrarnir senda eftir henni síðasta vetur. Stúlkan er mótfallin því að búa hér og það er erfitt að fá hana til að læra íslensku. Hún fær tíma hjá nýbúakennara og sérkennara. Í samfélagsfræði var í upphafi reynt að einfalda efnið fyrir hana en samt hefur það ekki skilað sér, enda hefur hún enga tengingu, t.d. í landafræði Íslands og sögu um landnámsmenn. Kennari hefur því núna oftar og oftar reynt að finna tengingu við Litháen eða sögu/landafræði sem hún þekkir og leyfir henni að vinna það á móðurmálinu. Svo fer hún með verkefnin til nýbúakennara sem vinnur úr því með henni, aðallega munnlega. Í jólafríinu fór hún til Litháen og nýbúakennarinn hvatti hana til að fá kennslubækur úti. Hún vissi að bekkurinn var að fara að vinna með víkingaöldina, því hún kom með bók um víkinga á litháísku. Hún vinnur með sitt efni í tímum, í bland við það sem aðrir eru að gera og sem fyrr, vinnur úr því hjá nýbúakennara.

B. er einn af afburðarnemendum í nýbúadeildinni. Hann kom til Íslands frá Filippseyjum ásamt foreldrum og tveim eldri bræðrum, Þegar hann var tíu ára. Strákarnir byrjuðu allir þrír að stunda nám í Austurbæjarskóla. Á sama tíma sótti móðir þeirra tíma hjá Mími og lærði þar íslensku af kappi. Frá byrjuninni voru foreldrarnir í góðu sambandi við skólann.
B. var vel læs á sínu móðurmáli, þegar hann kom til Íslands og kunni auk þess nokkuð í ensku. Hann vann samviskusamlega allt sem fyrir hann var lagt og sýndi áhuga á náttúrufræði, sögu, tækni, landafræði.
Kurteisi hans og jákvæðni skapaði honum örugga stöðu í nemendahópnum og hann tengdist fljótt öðrum krökkum og eignaðist góða vini. Það sem við kennarar í Austurbæjarskólanum kunnum sérstaklega að meta var að B. lét aldrei í skyn að einhver annar væri ekki nógu klár, duglegur, skemmtilegur, eða að hann væri betri en aðrir – ekki eru allir fullorðnir nógu þroskaðir til þess og örfáir krakkar. En skólinn okkar stendur einmitt fyrir lögmálum fjölmenningar um að enginn er góður í öllu og allir eru góðir í einhverju.
B. lærði fljótt og vel og það tók ekki langað tíma að við byrjuðum að spjalla á íslensku. Eftir hálft ár íslenskunáms gat hann myndað flóknar setningar og notað ýmsar myndir orða. Einu sinni hitti ég hann nálægt skólanum og hann spurði hissa: býrð þú hér? Rétt orð, réttar orðmyndir, rétt orðaröð. Drengur með mjög framandi filippseysk móðurmál tiltölulega nýkominn til landsins. Drengur, sem stundar nám samviskusamlega, sem er sterkur í móðurmálinu og sem fær hvatningu að heiman.
Vegna þess að B. eignaðist góða vini vildi hann eyða mesta tíma með þeim. Þótt í skólanum er boðið uppá heimanámsaðstoð fyrir nýbúa, sótti B. þá ekki oft, af því hann var að læra með vinum sínum.

Árangur þessa dugnaðar og góðs bekkjaranda lét ekki á sér standa. Á öðru ári í skólanum sótti B. allar námsgreinar með sínum bekk nema dönsku- og bókmenntatíma.

Þessi saga átti að skýra hvað er mikilvægast í íslenskunámi hjá börnum: góð þekking á móðurmálinu, hvatning frá foreldrum og góð samskipti í bekknum.

Einn nemandi í tíunda bekk var nýbúi og hafði komið til Íslands þegar hún var 10 ára. Ekki kunni hún íslensku, ensku eða dönsku. Kennara er minnisstætt þegar hann þurfti að útskýra það fyrir móður hennar að samræmt próf í íslensku gæti verið erfitt fyrir hana. Fyrir viðtalið hafði íslenskukennarinn bent umsjónarkennara á nokkur dæmi þar sem þessi stúlka sat greinilega ekki við sama borð og hinir nemendurnir. Hún skildi ekki draugasöguna þar sem fólk gekk aftur. Hvað er svona hræðilegt þegar fólk bakkar? Eða hvers vegna er slæmt þegar sagt er um einhvern að hann sé fingralangur, mamma segir að ég hafi svo fallega langa fingur. Ekkert slæmt við það. Þessi stúlka var samviskusöm og lærði vel heima og fékk því góðar einkunnir úr lesnu efni en öll tvíræðni í texta var henni mjög erfið

Táknmálstalandi

Vorsólin hefur vakið flugu sem tyllir sér á skólastofuvegg. Hún lætur augun hvarfla um stofuna og sér að undir öllum stólfótum eru tennisboltar. Utan um sömu stólfætur er hitaeinangrun, á skólaborðunum eru gúmmímottur og fyrir gluggunum hanga hljóðeinangrandi gluggatjöld.

Á víð og dreif um stofuna sitja nemendur sinna verkefnum sínum. Fremst situr túlkur reiðubúinn að bregðast við næst þegar talað er við allan bekkinn. Stúlka í miðri stofunni stendur á fætur til þess að sækja sér gögn. Hún rekur stólinn í borðfót en ekkert heyrist því hitaeinangrunin kemur í veg fyrir að járn skelli í járn. Öll hvell umhverfishljóð eru útilokuð því þau magnast upp í heyrnartækjum og trufla einbeitingu. Þvert yfir stofuna biður nemandi um leyfi til þess að fara á snyrtinguna. Fingurnir stafa WC og augun horfa spyrjandi á kennarann sem kinkar kolli án þess að gera hlé á útskýringum á íslensku fyrir öðrum nemanda.

Við tölvuna situr drengur og þjálfar sig í lestri. Fyrst horfir hann á blaðsíðuna í bókinni lesna á táknmáli á skjánum. Hann les svo textann sjálfur í hljóði, áður en hann les hann á táknmáli. Sérkennari situr hjá honum og spyr um merkingu einstakra orða.

Allt í einu blikka ljósin. Kennarinn hefur sett upp hljóðnemann og biður um athygli allra. Túlkurinn túlkar orð hans jafnóðum á táknmál. Hlýr vindurinn að utan ber með sér blómailm sem lokkar fluguna aftur út um gluggann í þann veginn sem skólabjallan blikkar og sendir börnin út í blíðuna.

Kostir og gallar námsefnis

Ég var svo heppin að hafa afburðar nemanda í stærðfræði. Draumur hvers kennara! Því miður fyrir þennan nemanda þá eru til orðadæmi og það oft á alvöru íslensku. Nemandinn minn hafði rússnesku sem móðurmál , enginn á heimilinu talaði íslensku. Heimanámið gat því verið ansi strembið. Þessum nemanda hentaði vel að vinna námsefni eins og Almenn stærðfræði í stað Átta Tíu bókanna þar sem getan kom betur til skila fyrir hann. Þegar próf voru án orðadæma var einkunnin alltaf 10 en ef orðadæmin komu þá fór það stundum eftir því hvort nógu góð túlkun var til staðar hver útkoman var.
Það getur verið snúið að vera snúbúi.
Snúbúar sem byrja skólagöngu erlendis lenda oft í hremmingum með móðurmálið þegar heim er komið . Hér má nefna stafsetningu þar sem orðin eru ekki skrifuð eins og þau eru sögð. Hvers vegna má ég ekki skrifa „ Ég sá fullt af kvölum úti á flóanum.“ Og hvernig getur hann verið með hvali í maganum“.

Hversu langt á að ganga og hvað ber að varast

Danir tóku mjög vel á móti nemendum með annað móðurmál en dönsku og lögðu sig fram um að veita þeim kennslu á móðurmálinu. Þegar H.C Andersen skólinn var byggður í Odense var sett nýtt markmið varðandi nemendasamsetningu. Nú var talið óæskilegt að fjöldi dönskumælandi nemenda færi undir 25%. Rökin voru þau að það mikið nám færi fram í leik og frístund barna. Börn sem þurfa að dönsku við vinina og heima hjá þeim eru líklegri til að bæta sig meira en þeir sem tala dönskuna bara í nokkrum tímum i innan skólans.

1px